Fyrirtækið fagnar 100 ára afmæli sínu um þessar mundir, en hinn 5. febrúar 1919 fékk stofnandi þess, Ottó B. Arnar, loftskeytafræðingur útgefið af Lögreglustjóranum í Reykjavík svonefnt „borgarabréf“ en það var ígildi verslunarleyfis á þessum tíma og hófst þá formlegur rekstur fyrirtækisins sem einkafyrirtæki Ottós, sem seldi þá m.a. ritvélar, talsímatæki o.fl.
Aðalstarfsemi þess núna er innflutningur og sala á skrifstofutækjum og rekstrarbúnaði af margvíslegum toga fyrir fyrirtæki, opinberar stofnanir, banka, skóla, prentiðnað o.fl. Það hefur á þessum hundrað árum unnið með fjöldamörg erlend fyrirtæki, ekki aðeins á skrifstofutækjasviði, heldur einnig á fjarskiptatækni-, siglingatækja-, umferðarljósa– og rafeindasviði.
Fyrirtækið hefur verið í eigu afkomenda Ottós allar götur síðan og reka nú sonur og sonarsonur hans það og hafa gert um langa hríð.
Fyrirtækið er með aðsetur að Skipholti 17 í Reykjavík.
Af þessu tilefni munu eigendur og starfsmenn félagsins taka á móti velunnurum þess og viðskiptavinum í húsnæði þess þriðjudaginn 5. febr. nk. milli kl. 16 og 19.