Nú er það svart en örvæntið ekki!

Í tilefni af svonefndum svörtum föstudegi og til að vera með í leiknum bjóðum við 50% afslátt þennan dag og næstu daga af ýmsum plastvörum til indbindingar skjala, svo og af lituðum harðkápum. Hugsanlega er einnig unnt að veita smáafslátt af einhverju öðru sem er á boðstólum hjá okkur.

Vistvæn kortaslíður

Birgir okkar í kortaslíðrum, hálsböndum, snúruhjólum o.fl., Sogedex Accessories í Frakklandi, hefur að á undanförnum mánuðum verið að framleiða vistvæn kortaslíður „Biodegradable“ en einnig slíður, sem hrinda frá sér örverur „antimicrobial“. Auk þess er í boði slíður með vörn fyrir gagnakort. Þessi vistvænu slíður eru ekki enn á lager hjá okkur, en sýnishorn eru fyrir hendi ef áhugi er að skoða þau og jafnvel láta okkur panta slík slíður.

Verðhækkun á útseldri þjónustu

Eins og mörg undanfarin ár voru taxtar fyrir útselda þjónustu hækkaðir um 5% 1. september sl. Þrátt fyrir að laun hafi hækkað síðustu áramót hefur verið miðað við þessa dagsetningu. Vonað er að næstu kjarasamningar verði það hóflegir að ekki þurfi að breyta þessari hefð.

Vetraropnunartími

Enda þótt veturinn er ekki enn genginn í garð og haustið skollið á með umbreytileika veðurfarsins þá breyttist opnunartími okkar 1. sept. sl. og nú er opið frá kl. 9.00 til kl. 17.00 nema á föstudögum, lokum þá kl  16.00.

Umhverfisvænar umbúðir utan um prentborða

Að undanförnu hefur ENTRUST fyrirtækið verið að breyta umbúðum utan um prentborðana fyrir plastkortaprentara í umhverfisvænar umbúðir, sbr. meðf. mynd. Þetta er jákvætt, en neikvæðu fréttirnar eru að vegna hækkunar á hráefni sem notað er í framleiðslu á þessum prentborðum hefur fyrirtækið neyðst til að hækka verðið á þeim. Þetta hefur verið gert í smáskömmtum en engu að síður eru hækkanir nánast í hverri sendingu sem við fáum. Að auk hefur bandaríkjadollar hækkað að undanförnu, svo að þessi hækkun hefur einnig áhrif á verðið. Okkur þykir þetta miður og vonum að þessar hækkanir verði  ekki viðvarandi öllu lengur. Það má og geta þess að það eru fyrst og fremst prentborðar í gömlu SP og SD prentaralínuna sem hækka mest, en rekstrarvörur í SIGMA prentarana eru frekar hófstilltir í verðhækkunum enn sem komið er.

STAFRÆNAR BODET ÚTIKLUKKUR Á AKUREYRI

Nýlega voru settar upp tvær samtengdar stafrænar útiklukkur frá Bodet-Time á Glerártorgi á Akureyri, en auk tímans sýna þær einnig hitastig. Klukkurnar eru með 25 cm rauðum stöfum og til að viðhalda ávallt réttum tíma taka þær við GPS merkjum frá gervitunglum. Sams konar klukka er í Sundlaug Akureyrar, en á fæðingardeild  Sjúkrahúss Akureyrar eru tvær stafrænar inniklukkur með WiFi tengingu, sem sýna nákvæmlega réttan tíma þegar fæðing á sér stað.

Rýmingarsala á harðkápuefnum í A4 stærð

Í mörg undanfarin ár höfum við leitast við að bjóða sem mest úrval í innbindiefnum fyrir skýrslugerð o.þ.h., m.a. með að eiga marga liti og gerðir af harðkápuefnum sem og forsíðuplasti. Nú hefur eftirspurn minnkað verulega, mun færri að gera skýrslur o.fl. á pappír, og því hafa safnast hjá okkur nokkuð magn harðkápuefna, sem við viljum losna við og höfum þar af leiðandi sett í rýmingarsölu með 50% afslætti. Þetta harðkápuefni er einnig hentugt í alls kyns föndur fyrir leikskóla og heimakær börn.

WiFi-tengdar hliðrænar og stafrænar veggklukkur

Nýjung hjá Bodet-Time framleiðanda hliðrænna og stafrænna veggklukkna er WiFi klukkur, sem fá tímamerki beint frá beini með skráningu  IP tölu og séu fleiri en ein klukka á staðnum munu þær allar sýna sama tíma. Þær þurfa því aðeins rafmagnstengingu en nauðsyn á tengingu við sérstaka stjórnstöð er óþörf. Nýlega voru tvær stafrænar klukkur með WiFi tengingu, eins og myndin sýnir, settar upp í fæðingarstofum í Sjúkrahúsinu á Akureyri og er almenn ánægja með þessar klukkur. Við bjóðum áfram klukkur sem ýmist vinna sjálfstætt eða með tengingu við stjórnstöð þegar WiFi klukkur henta ekki til notkunar á viðkomandi stað eða ef stjórnstöðin eigi jafnframt að stjórna bjölluhringingum eða öðrum tímasettum aðgerðum.

OKI svart-hvítir LED prentarar

Vorum að fá sendingu á nokkrum OKI prenturum, sem prenta í svörtu á A4 pappír (eða minna). Þetta eru B412dn gerðin sem prentar báðum megin ef svo ber undir, prenthraði 33 einhliða síður á mínútu. Sama verð og áður, þ.e. tæplega 50 þús. kr.  Eins og flestir vita er orðið erfitt að fá sum prenttæki til landsins, fyrst og fremst vegna skorts á hálfleiðurum, en einnig vegna tafa á flutningi milli landa, sérstaklega frá Asíulöndum.

Umslagapökkunarvél

Enda þótt notkun umslaga fer ört þverrandi eru margir bankar og innheimtufyrirtæki enn að senda tilkynningar bréfleiðis, ennfremur liggur markaðsfæri í tilkynningum á bréfsefni, t.a.m. í beinni markaðskynningu. Allir vita hversu ömurlegt það getur verið að handbrjóta pappír og stinga inn í umslag og loka því.  Nauðsynlegt að hafa plástur í skúffunni. Við erum með í umboðssölu lítið notaða umslagapökkunarvél, Pitney Bowes gerð „Relay“ 2000. Hún er snögg að brjóta pappírinn í helming eða í þrennt og stinga honum inn í umslagið. Ef það er með lími á gamla mátann getur hún vætt límið og lokað umslaginu. Hafðu samband – verðið er samkomulagsatriði!