Saga OBA

Otto B. Arnar ehf. sérhæfir sig í innflutningi á ýmis konar skristofuvélum og sérhæfðum vélbúnaði fyrir fyrirtæki, banka, skóla og aðrar stofnanir. Einnig prent- og bókbandsbúnaði fyrir prentsmiðjur og fjölritunarfyrirtæki.

Meðal sérhæfðs vélbúnaðar, sem fyrirtækið selur og hefur selt hér, eru m.a. mjög fullkomnar kortagerðarvélar sem eru notaðar til að gefa út langflest bankakort í umferð hérlendis, en fyrirtækið selur einnig plastkortaprentara fyrir félög og fyrirtæki til að gefa út eigin starfsmanna- og félagakort, þ.m.t. vinnustaðaskírteini, en einnig fyrir alls konar viðskiptahlunnindi.
Fyrirtækið hefur einnig haslað sér völl á sviði véla til að annast frágang og dreifingu á póstlögðu efni, og má þar nefna pappírsbrotvélar, umslagaísetningarvélar, frímerkingarvélar, dagstimplunarvélar og póstflokkunarvélar, en fyrirtækið sérhæfir sig í ýmsum lausnum varðandi fjölföldun og frágang ritaðs efnis, þess sem ekki er unnið í prentsmiðjum eða fjölritunarstofum. Má nefna fjölritara, röðunarvélar, innbindivélar fyrir vírgorma og plastgorma og plöstunarvélar, bæði fyrir rúlluplast og plöst í afmörkuðum stærðum frá bankakortastærð upp í A2 stærð, og að sjálfsögðu mikið úrval af rekstrarvöru. En einnig býður fyrirtækið iðnaðarvélar fyrir sömu vinnslu ætlaðar prentsmiðjum og öðrum fjölföldunarfyrirtækjum.

Fyrirtækið hefur haslað sér völl í innflutningi á prentuðum plastkortum, sérstaklega Visa og MasterCard greiðslukortum, og getur útvegað allt hið nýjasta á þessu sviði, svo sem kort með segulrönd og örgjörva.

Stimpilklukkur og tölvustýrð tímaskráningarkerfi, bæði fyrir segulkort, svo og fingrafaraskönnun eru þættir í sölustarfsemi fyrirtækisins, og ennfremur pappírs- og skjalatætarar, bæði fyrir skrifstofunotkun, og líka öflug tæki til iðnaðarnota.

Hið nýjasta í vöruframboði okkar eru tölvuprentarar og fjölnotatæki frá hinum virtu fyrirtækjum OKI og Olivetti. Frá þeim koma bæði laserprentarar fyrir svarta og litaprentun. Fjolnotatækin eru í raun prentari, ljósritunarvél, skanni og í sumum tilfellum einnig faxtæki.

Fyrirtækið hóf rekstur af stofnanda þess, Ottó Björnssyni Arnar, loftskeytafræðingi, árið 1919, og var framan af rekið sem einkafyrirtæki hans, en eftir andlát hans 1972 var það rekið sem einkafyrirtæki fjölskyldu hans en síðan 1995 hefur það verið rekið sem einkahlutafélag í eigu nokkurra afkomenda Ottós. Það er því með elstu starfandi fyrirtækjum á landinu. Markmið þess hefur ávallt verið að bjóða vandaða vöru á viðunandi verði og veita viðskiptavinum sínum persónulega þjónustu en lykilorð félagsins er einmitt „Þjónusta til frambúðar“, en einmitt með þetta lykilorð að leiðarljósi hyggst félagið auka vöruval sitt þegar fram líða stundir til að geta veitt viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu.

100 ára sögu félagsins er hægt að nálgast hér í pdf skjali.

Stjórn fyrirtækisins:
Snorri B. Arnar, stjórnarformaður
María S. Arnar, meðstjórnandi
Birgir Arnar, meðstjórnandi
Otto B. Arnar, meðstjórnandi